Beikonvafinn Þorskhnakki

http://blog.pressan.is/ragnarfreyr/2012/12/02/beikonvafinn-thorskhnakki-med-chilli-sveitafronskum-og-hvitlaukssosu/

Það eru kannski ekki margar fiskuppskriftir hér á vefnum, enda er ég mikil kjötæta. En þessi þorskuppskrift er dásamleg, ekki skemmir fyrir að hafa girnilegt bacon fyrir kjötæturnar. Sumir segja að þorskhnakki sé “nautalund” hafsins.

Tómatsúpa

Alveg einstaklega einföld og ljúffeng súpa

Uppskrift

1 msk. olía

1 stór laukur

2-3 msk. karrý

1 dós kjúklingabaunir

1-2 dl. mjólk eða rjómi

3 dósir niðursoðnir tómatar

Steikið laukinn upp olíunni og karrrýinu. Bætið tómötunum og kjúklingabaununum saman við og látið sjóða í 10-15 mínútur. Maukið með töfrasprota, hrærið að síðustu mjólkinni eða rjómanum saman við. Gott er að bera sýrðan rjóma og ferskan kóríander fram með súpunni.

Svínalundir með sítrónusósu

Mér leist nú ekkert allt of vel á þessa í fyrstu en eiginmaðurinn eldaði þetta fyrir mig eitt kvöldið, þvílíkt nammi, og sósan kallar sko fram Umami bragð.

Uppskrift

450 gr. grísalundir

1 bréf parmaskinka

250 gr. mascarpone ostur

Safi og börkur af einni sítrónu

2 tsk. salvía

Salt og nýmalaður pipar

Ristið skurði í lundirnar með um það bil 1,25 sm. bili á milli, passið að skera ekki í gegnum kjötið. Setjið ostinn, börkinn, salvíuna, salt og pipar í skál og landið vel saman. Fyllið skurðina í kjötinu með blöndunni, leggið afganginn af henni til hliðar. Vefjið parmaskinkunni utan um kjötið. Setjið kjötið í eldfastmót og steikið í ofni 30 mínútur. Þegar lundirnar eru tilbúnar takið þær út og leggið til hliðar. Hellið soðinu af lundunum í pott, bætið sítrónusafanum og afganginum af blöndunni saman við og hrærið vel í. Smakkið til með salt og pipar.

Svínahnakki með anísbættri ostrusósu

Bara nafnið á þessum rétti fær munnvatnið til að fljóta. Anísbætt ostrusósa er vægast sagt Umami. Hvítlaukurinn og chilli gefur ákveðinn tón í umami bragðið.

Uppskrift

4 x 200 gr. grísahnakkasneiðar

Anísostrusósa

½ dl sojasósa

½ dl. ostrusósa

½ dl vatn

5 heilir stjörnuanísar

1 hvítlauksrif, smátt saxað

1/3 chilli aldin, smátt saxað

1 msk. hunang

Setjið allt í skál og blandið vel saman. Leggið kjötið í skálina og geymið í kæti í 2 klst. Strjúkið þá sem mest af anísleginum af kjötinu ofan í pott og setjið restina af leginum úr skálinni í pott og sjóði í 5-7 mínútur eða þar til að hann fer að þykkna. Grillið steikurnar í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Penslið þá kjötið með anísleginum og grillið í 2-3 mínútur í viðbót.

Borið fram með restinni af anísleginum, kartöflum og grænmeti.

Karmelluð andabringa á salati með sætri sojadressingu

Þarna spilar sojasósa og sætan saman og gefur gott umami bragð. Önd er líklega ekki oft á matseðlinum hjá fólki og því telst þessi réttur vera sannur hátíðarréttur.

Öndin

4 andabringur

Salt og pipar

Brúnið bringurnar á pönnu eða grilli og gætið þess að elda þarf bringurnar lengur á fitumeginn til að fitan verði stökk (um það bil 70% tímans á fituhliðinni) Kryddið með salt og pipar. Eldið bringurnar í ofni við 100°C í 5 mínútur eða þar til þær verða aðeins minna en miðlungssteiktar (kjarnhiti 50-55°) Skerið bringurnar niður.

Karmellusósa

200 gr. sykur

50 gr. smjör

½ dl. rjómi

Brúnið sykur við vægan hita, bætið smjöri úti í og hrærið rjóma loks saman við. Látið sjóða í 5-6 mínútur við vægan hita.

Veltið andabringunum upp úr heitri karmellusósunni.

Salat

1 granatepli

1 poki klettasalat

Takið fræin úr granateplinu og blandi saman við klettasalatið.

Sæt sojadressing

1 dl sojasósa

1 msk. hlynsíróp

1 msk. sesamolía

1 tsk dijonsinnep

1-2 skallott laukar smátt saxaðir

Öllu þessu blandað saman

Uppsetning

Setjið salatið á disk og hellið sojadressingunni yfir. Leggið sneiðar af andabringunni með karmellusósunni ofan á.

Buff Tartar

Algjört sælgæti fyrir þá sem leggja í það að borða hrátt kjöt, æðislegur sem aðalréttur, en einnig tilvalinn sem forréttur fyrir þá sem vilja bara rétt smakka.

Uppskrift

500 gr. nautakjöt file eða lund

2 eggjarauður (ekki ískaldar)

2 ansjósuflök

2 tsk. dijonsinnep

1 tsk. tómatpúrra

1 tsk. worcestersósa

1 msk. ólífuolía

1 laukur mjög fínt skorinn

1 msk. ætiþistlar úr krukku, fínt skornir

1 tsk. kapers fínt skorið

Skerið kjötið mjög fínt (ekki hakka). Blandið saman öllum hinum hráefnunum. Blandið kjötinu rólega saman við þar til allt hangir vel saman. Skiptið kjötinu í 4 parta og mótið í buff.

Berið fram með salati og brauði

Savoykjúklingur

Þessi kjúklingaréttur er ekta franskur sveitaréttur, og er frábær tilbreyting á kjúklingaeldamennsku. Rosalega bragðgóður og ég lofa ykkur því að ef þið prófið hann einu sinni þá verður hann fastur liður á matarborðinu ykkar framvegis.

Uppskrift

1 stór kjúklingur

Salt og pipar

1 steinseljubúnt

3-4 estragon greinar

2 smálaukar

2 ½ dl. kjötsoð

1 dl hvítvín

3 msk. rifinn ostur

2 dl. rjómi

2 msk. hveiti

2 tsk. dijon sinnep

2 msk. brauðmylsna

4 msk. smjör

Skerið kjúklinginn í fernt og núið hann með salti og pipar og 2 msk. af smjörinu. Látið bitana í eldfast mót ásamt steinselju, estragoni og lauk, hellið 1 dl, af kjötsoði yfir og setjið í 220°C heitan ofninn í 50 mínútur. Vætið kjúklinginn af og til með soðinu. Bræðið 2 msk. af smjöri í potti hrærið 2 msk. af hveiti út í og blandið með afganginum af kjötsoðinu, víninu og rjómanum. Bragðbætið sósuna með sinnepinu. Blandið saman brauðmylsnunni og rifna ostinum.Takið kjúklinginn úr út ofninum setjið hann á fat og hellið safanum úr mótinu í gegnum sigti út í sósuna og hrærið vel. Setjið kjúklinginn aftur í eldfastamótið hellið sósunni yfir, stráið osta brauðmylsnublöndunni yfir og látið aftur inn í ofninn og látið réttin gyllast.

Borið fram með brauði og salati.

Ólífukjúklingur

Hér er réttur sem systir mín eldaði fyrir okkur um árið. Mörg skemmtileg bragðefni sem gefa kjúklingnum höfugra bragð og braðlaukarnir dansa.

Uppskrift

2 msk ólífuolía

1,5 kg. kjúklingur

1 stór laukur, sneiddur

1 msk. rifinn engiferrót

3 hvítlauksrif marin

1 tsk. paprikuduft

250 ml. kjúklingasoð

2-3 saffranþræðir settir í 1 msk. af sjóðandi vatni

4-5 vorlaukar saxaðir

15-20 svartar og grænar ólífur

Safi úr hálfri sítrónu

Salt og svartur pipar

Olían hituð í stórri pönnu eða pottir, kjúklingurinn brúnaður. Kjúklingur tekinn upp úr. Laukur, engifer, hvítlaukur og paprikukrydd sett í pottinn og svissað aðeins, kjúklingur settur aftur í pottinn ásamt kjúklingasoðinu og saffraninu. Suðan látin koma upp og soðið í um það bil 45 mínútur. Þá er vorlauknum og ólífunum bætt út í og soðið áfram í 15 mínútur. Að lokum er sítrónusafanum bætt við og soðið áfram í 5 mínútur. Kjúklingurinn settur á fat (djúpt) og sósu hellt yfir,

Borið fram með hrísgrjónum og salati.

Austurlensk súpa

Austurlensk súpa sem við köllum alltaf “fiskisúpuna”, samt er hún með kjúklingabringum. Held að nafnið komi til vegna þess að við þurftum í fyrsta skipti að nota fiskisósu sem lyktar ekki beint vel og er ekki bragðgóð ein og sér en gerir kraftaverk í matargerð og er mikið notuð í austurlenskskri matargerð. Þessi súpa er afar matarmikil og klárast alltaf upp til agna.

Uppskrift

1,4 l. bragðmikið kjúklingasoð

6 dl. ósæt kókosmjólk

500 gr. kjúklingabringur

370 gr. sveppir

3 msk. asísk fiskisósa

3 msk. olía

1 msk. rautt karrýmauk

4 ½ stk. vorlaukar, fínt sneiddur

9 stk. þunnar engifersneiðar

9 stk. mulin kóríanderfræ

4 ½ stk. þurrkuð limeblöð

1 ½ stk. sítrónugrasstilkur (lime gras)

1 ½ hvítlauksgeiri, saxaður

1 ½ laukur

2 lime (bara safinn)

Salt og pipar

Kóríander til skrauts

Hreinsið sítrónugrasið og skerið í 2-3 bita. Setjið olíuna í stóran pott ásamt lauk, hvítlauk og kóríanderfræjunum hitið upp á miðlungshita, svitið í 1-2 mínútur og hrærið í. Bætið því næst sítrónugrasi, karrímaukinu, engiferinu og limeblöðunum út í. Sjóði og hrærið í um það bil 3-4 mínútur, bætið þar næst kjúklingasoðinu í, sjóðið upp og lækkið hitann. Látið sjóða í um það bil 15 mínútur. Brytjið kjúklingabringurnar í 3-4 sm. Bita. Skerið sveppina í fernt og sjóðið í áfram í 5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Hrærið og bætið lime safanum og fiskisósunni út í. Bragðið og kryddið til eftir smekk.

Borið fram með vorlauk og kóríander.

Nautalundir í litlum sneiðum með kúrbít og salati

Hér er skemmtileg aðferð að útbúa nautakjöt, ég nota lundir en vissulega er hægt að nota annan part af skepnunni. Kúrbítur og salatið léttir réttinn og myndar andstöðu við þungt kjötið.

Uppskrift

600 gr. nautalundir

Skornar í 1 sm. þykkar sneiðar

1-2 kúrbítar skornir í sneiðar

1 lítið eggaldin skorið í sneiðar

1 höfuð eikarlauf, skolað vel í vatni og þerrað (eða annað grænt salat)

1 dl. blandaðar ólífur

4 msk. þurrristaðar furuhnetur

2 msk. sólþurrkaðir tómatar

4 msk. nýrifnar flögur af parmesanosti

1 ½ dl. jómfrúarolía

1 msk. balsamikedik

1 búnt fersk basilíka

2 hvítlauksgeirar

1 tsk. rifinn sítrónubörkur

Salt og svartur pipar úr kvörn

Steikið kjötið eldsnöggt á rifflaðri pönnu eða útigrilli. Saltið og piprið. Veltið kúrbítnum og eggaldinsneiðunum upp úr olíunni og steikið á sama hátt saltið og piprið.

Rífið niður salatið og setjið í skál. Takið 4 msk. af olíu og hrærið saman við 1 msk. af balsamikedikinu, saltið og piprið. Hellið þessari vinagrettu yfir salatið og blandið vel saman, Látið salatið á miðjan diska eða fat. Raðið litlu nautasteikunum og kúrbíts- og eggaldinsneiðunum umhverfis salatið. Setjið ólífur meðfram og á salatið. Látið sólþurrkuðu tómatana yfir. Stráið þurrristuðum furuhnetunum yfir salatið. Látið basilíkublöðin, hvítlauksgeirana og sítrónubörkin í matvinnsluvél og hakkið fínt. Hellið afganginum af olíunni saman við og saltið og piprið að smekk. Skvettið þessu fallega yfir litlu steikurnar, kúrbítinn og eggaldinið og látið að síðustu nýrifnar parmesan flögur yfir allt saman.

Lambainnanlærisvöðvi með kryddjurtum og parmesanosti

Hér er á ferðinni lambakjötsréttur þar sem sérstök kryddblanda myndar afar bragðgóða húð utan á kjötið, ítölsk áhrif svífa þarna yfir vötnum. Best er að flýta sér ekki við að snæða þennan rétt, miklu frekar að taka sér góðan tíma með ítölsku rauðvínsglasi og helst í góðra vina hópi.

Uppskrift

800 gr. lambainnanlærisvöðvi

½ dl. ólífuolía

3 msk. blandaðar ferskar kryddjurtir (timían, oreganó, rósmarín, steinselja, eða hvað sem vill)

3 msk. nýrifinn parmesanostur

1-2 hvítlauksgeirar

2-4 msk. brauðrasp

Salt og pipar úr kvörn

Blandið saman í matvinnsluvél olíunni, kryddjurtunum, parmesanostinum og hvítlauknum. Keyrið allt í fínt mauk. Látið smávegis af brauðraspi út í til að þykkja maukið.

Brúnið kjötið á pönnu, þekið það með kryddjurta og parmesanblöndunni. Bakið við 160°C í um það bil 12-15 mínútur eða þar til kjöthitamælir sýnir 62-64° hita inn við miðju.

Sósan

1-2 skarlottulaukar, fínt saxaðir

2-3 hvítlauksrif

1 msk. ólífuolía

1 dl. hvítvín

3 dl. gott kjötsoð (nauta- eða lambasoð)

3 msk. kryddjurtir, saxaðar (sömu tegundir og notaðar eru í hjúpinn)

Sósujafnari

2 msk. smjör

Salt og pipar

Léttsteikið laukana upp úr olíunni og hellið hvítvíninu yfir. Látið sjóða vel saman og hellið kjötsoðinu yfir. Látið sjóða niður um 1/3, Setjið þá kryddjurtirnar saman við og bragðið á. Bætið salti og pipar út í eftir þörfum. Þykkið aðeins með sósujafnara. Hrærið að lokum köldu smjörinu smátt og smátt saman við.

Rísottó rétttur

Þetta Risotto er æði, það sem mér finnst sérstaklega ánægjulegt er að hneturnar, osturinn, parmaskinkan með perunum er borið fram sér með Risottoinu, þannig að þú ræður hve mikið magn af hverju fer endanlega á þinn disk.

Uppskrift

1 laukur

2 hvítlauksrif

olía

Rísottóhrísgrjón 250 gr.

Kraftur (svína eða grænmetis-) tæpur 1 lítri

1 glas hvítvín

Parmaskinka

Perur

Valhnetukjarnar

Parmesanostur

Gróft salt

Svartur pipar

Svissið lauk og hvítlauk í smá olíu á pönnu, setjið hrísgrjónin út í, steikið þar til grjónin fara að verða aðeins glær, hellið þá hvítvíninu saman við og leyfið að sjóða niður, bætið þá krafti saman við í smá skömmtum, ekki of mikið í einu, leyfið grjónunum að drekka í sig allan vökva áður en bætt er meira út í og hrærið vel í á milli. Smakkið til með salti og pipar.

Berið fram með upprúlluðum parmaskinkusneiðum, ferskum perubitum, gróf söxuðum valhnetukjörnum, ferskum parmesanosti og grófu salti og pipar,

Ítalskar kjötbollur

Þenna rétt höfum við hjónin eldað í 20 ár. Hann tekur mikin tíma í undirbúning og því þarf að fara með því hugafari í eldamennskuna að njóta þess. Rétturinn er klassískur ítalskur réttur og svona heimagerðar bollur eru algert lostæti.

Kjötbollur

6 brauðsneiðar án skorpu

½ dl mjólk

200 gr, nautahakk

200 gr. Svínahakk

2 egg

½ dl fersk steinselja smátt söxuð

3 msk. Parmesan ostur ný rifinn

2 hvítlauksgeirar smátt saxaðir

Salt og pipar

½ dl olía

Rífið brauði niður í bita og leggið í bleyti í mjólkinni í 5 mínútur. Bætið því næst hakkinu, eggjunum, steinseljunni, parmesanostinum og hvítlauksgeirunum úti í og kryddið með salt og pipar. Mótið úr farsinu litlar bollur. Hitið 2 msk. af olíunni á pönnu og steikið bollurnar við mikinn hita í 3-5 mínútur snúið þeim reglulega. Takið bollurnar af pönnunni og setjið á disk.

 

Sósan

80 gr. Laukur, smátt saxaður

2 hvítlauksgeirar smátt saxaðaðir

750 gr niðursoðnir tómatar, gróft saxaðir

1 ½ dl. rauðvín

2 dl. kjötkraftur

½ dl fersk steinselja, smátt söxuð

1 msk. ferskt oregano eða 1 tsk. Þurrkað

Salt og pipar

Léttsteikið laukinn í afganginum af olíunni í 2-3 mínútur, Bætið þá hvítlauknum saman við og steikið áfram í 1 mínútu. Bætið tómötunum út í ásamt vökvanum, rauðvíninu og kjötkraftinum kryddið með salt og pipar. Látið suðuna koma upp á sósunni, lækkið hitann setjið lok á pönnuna og sjóðið við vægan hita í 30-45 mínútur. Stuttu áður en sósan er tilbúin er bollunum bætt út í og sósan þykkt ef vill með sósuþykkni.

Berið fram með pasta, brauði og parmesanosti.

 

Spaghettí með Portkonusósu

Þessi uppskrift er í algeru uppáhaldi hjá mér. Portkonusósan er fullkomið Umami, finnst mér. Ég elska þessa sósu svo mikið að ég nota hana með öðru hráefni líka, skipti til dæmis spaghetti út og nota kjúkling í staðinn.

Uppskrift

Slatti af ólífuolíu

8 – 10 hvítlauksrif

1 dós ansjósuflök

2 dósir niðursoðnir tómatar

Bolli af svörtum ólífum

Slatti af kapers

Steinselja

Olían er hituð ansjósuflökin marin út í og smátt saxaður hvítlaukurinn (ekki pressaður). Olían má ekki ofhitna, látið malla í smá stund. Tómatar maukaðir og settir úr í ásamt safanum. Kapersið og ólífurnar skornar smátt niður og bætt út í. Þetta sýður í nokkrar mínútur ekki of groddalega. Best að smakka sósuna til og pipra örlítið. Öllu hellt yfir spaghettí og hrært saman við. Steinselju stráð yfir.

Kartöfluréttur

Mjög góður réttur bæði sem aðalréttur með salati eða sem meðlæti með til dæmis kjúkling.

Uppskrift

1 kg. kartöflur

2 stórir laukar

1 hvítlaukur (pressaður eða saxaður)

2 dósir tómatar

3 dl. kjötkraftur

1 lárviðarlauf

1 msk paprikuduft

½ tsk timían

Salt og pipar

Rifinn ostur

Laukarnir settir á pönnu í olíu og létt steiktir, öllu hinu skellt útá látið malla í nokkrar mínútur. Sett í smurt eldfast mót og inn í ofn í 30 mínútur við 200 ° C. Þá er mótið tekið út og rifni osturinn settur yfir og aftur inn í ofn í ca. 30 mínútur.

Mjög gott að skipta rifna ostinum út fyrir gráðost fyrir þá sem borða hann,

 

Stroganoff

Fyrsti maturinn sem ég fékk hjá tengdó, hef alltaf haldið sérstaklega upp á þennan, lúmskt góður.

Uppskrift

Nautagúllas 750 gr.

100 gr.smjörlíki

1 tsk. salt

½ tsk pipar

1 lítill laukur

200 gr. sveppir

6 mtsk. tómatsósa

1 dl. vatn

3 dl. rjómi

1 tsk paprikuduft.

Kjötið kryddað með salt og pipar og brúnað á pönnu ásamt lauknum, sveppunum bætt úti og létt steiktir. Að lokum er vatninu, tómatsósunni, rjómanum og paprikuduftinu bætt útí og allt soðið saman í 40 mínútur.

Borið fram með hrísgrjónum og kartöflustöppu.

Pasta með túnfisk og basil

Þennan rétt fengum við hjónin fyrst að smakka þegar nágrannar okkar í sama húsi buðu okkur í mat fyrir þó nokkrum árum síðan. Bragðgóður og auðveldur í undirbúningi.

Uppskrift

Fresh basil sósa (eða grænt pestó)

Olía

1 laukur

2 sítrónur

1 túnfiskdós

Ostur

Salt og pipar

Laukur steiktur í olíu og kryddaður með salt og pipar, látið krauma. Safinn úr sítrónunum kreistur út í. Túnfiskinum er síðan bætt út í + meiri olíu. Pastað soðið. Öllu hellt saman í skál ásamt ostinum og 2 msk. af fresh basil sósunni.