Svínahnakki með anísbættri ostrusósu

Bara nafnið á þessum rétti fær munnvatnið til að fljóta. Anísbætt ostrusósa er vægast sagt Umami. Hvítlaukurinn og chilli gefur ákveðinn tón í umami bragðið.

Uppskrift

4 x 200 gr. grísahnakkasneiðar

Anísostrusósa

½ dl sojasósa

½ dl. ostrusósa

½ dl vatn

5 heilir stjörnuanísar

1 hvítlauksrif, smátt saxað

1/3 chilli aldin, smátt saxað

1 msk. hunang

Setjið allt í skál og blandið vel saman. Leggið kjötið í skálina og geymið í kæti í 2 klst. Strjúkið þá sem mest af anísleginum af kjötinu ofan í pott og setjið restina af leginum úr skálinni í pott og sjóði í 5-7 mínútur eða þar til að hann fer að þykkna. Grillið steikurnar í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Penslið þá kjötið með anísleginum og grillið í 2-3 mínútur í viðbót.

Borið fram með restinni af anísleginum, kartöflum og grænmeti.

Karmelluð andabringa á salati með sætri sojadressingu

Þarna spilar sojasósa og sætan saman og gefur gott umami bragð. Önd er líklega ekki oft á matseðlinum hjá fólki og því telst þessi réttur vera sannur hátíðarréttur.

Öndin

4 andabringur

Salt og pipar

Brúnið bringurnar á pönnu eða grilli og gætið þess að elda þarf bringurnar lengur á fitumeginn til að fitan verði stökk (um það bil 70% tímans á fituhliðinni) Kryddið með salt og pipar. Eldið bringurnar í ofni við 100°C í 5 mínútur eða þar til þær verða aðeins minna en miðlungssteiktar (kjarnhiti 50-55°) Skerið bringurnar niður.

Karmellusósa

200 gr. sykur

50 gr. smjör

½ dl. rjómi

Brúnið sykur við vægan hita, bætið smjöri úti í og hrærið rjóma loks saman við. Látið sjóða í 5-6 mínútur við vægan hita.

Veltið andabringunum upp úr heitri karmellusósunni.

Salat

1 granatepli

1 poki klettasalat

Takið fræin úr granateplinu og blandi saman við klettasalatið.

Sæt sojadressing

1 dl sojasósa

1 msk. hlynsíróp

1 msk. sesamolía

1 tsk dijonsinnep

1-2 skallott laukar smátt saxaðir

Öllu þessu blandað saman

Uppsetning

Setjið salatið á disk og hellið sojadressingunni yfir. Leggið sneiðar af andabringunni með karmellusósunni ofan á.

Austurlensk súpa

Austurlensk súpa sem við köllum alltaf “fiskisúpuna”, samt er hún með kjúklingabringum. Held að nafnið komi til vegna þess að við þurftum í fyrsta skipti að nota fiskisósu sem lyktar ekki beint vel og er ekki bragðgóð ein og sér en gerir kraftaverk í matargerð og er mikið notuð í austurlenskskri matargerð. Þessi súpa er afar matarmikil og klárast alltaf upp til agna.

Uppskrift

1,4 l. bragðmikið kjúklingasoð

6 dl. ósæt kókosmjólk

500 gr. kjúklingabringur

370 gr. sveppir

3 msk. asísk fiskisósa

3 msk. olía

1 msk. rautt karrýmauk

4 ½ stk. vorlaukar, fínt sneiddur

9 stk. þunnar engifersneiðar

9 stk. mulin kóríanderfræ

4 ½ stk. þurrkuð limeblöð

1 ½ stk. sítrónugrasstilkur (lime gras)

1 ½ hvítlauksgeiri, saxaður

1 ½ laukur

2 lime (bara safinn)

Salt og pipar

Kóríander til skrauts

Hreinsið sítrónugrasið og skerið í 2-3 bita. Setjið olíuna í stóran pott ásamt lauk, hvítlauk og kóríanderfræjunum hitið upp á miðlungshita, svitið í 1-2 mínútur og hrærið í. Bætið því næst sítrónugrasi, karrímaukinu, engiferinu og limeblöðunum út í. Sjóði og hrærið í um það bil 3-4 mínútur, bætið þar næst kjúklingasoðinu í, sjóðið upp og lækkið hitann. Látið sjóða í um það bil 15 mínútur. Brytjið kjúklingabringurnar í 3-4 sm. Bita. Skerið sveppina í fernt og sjóðið í áfram í 5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Hrærið og bætið lime safanum og fiskisósunni út í. Bragðið og kryddið til eftir smekk.

Borið fram með vorlauk og kóríander.